Tuesday, August 24, 2010

Uppáhalds myndirnar mínar


Hér á eftir kemur listi yfir uppáhalds myndirnar mínar. Ég vil taka það fram að myndirnar koma ekki fram í neinni sérstakri röð þar sem ég hef það sem reglu að gera ekki upp á milli uppáhalds myndanna minna og elska þær allar jafn mikið.

Lord Of The Rings trilogy

Ég viðurkenni að ég hef aldrei lesið bækurnar þó að ég hafi nokkrum sinnum byrað á þeirri fyrstu. Engu að síður er þetta stórfengleg saga í vel sköpuðum heimi.  Með því merkilegasta við kvikmyndirnar er það að þær eru leikstýrðar af sama manninum og gerði Brain Dead. Ég setti mér það takmark þegar ég var búinn að sjá þær allar fyrst að horfa ekki á þær aftur fyrr en ég væri búinn að gleyma þeim algjörlega svo ég gæti nokkurn veginn upplifað að sjá þær í fyrsta skipti aftur. Ég er enn að bíða.

V For Vendetta

Þetta er ein af þeim sem ég man alltaf hvar ég sá fyrst og get horft á aftur og aftur. Hrífandi söguþráður um dularfulla og aðeins of sjarmerandi grímuklæddan hryðjuverkamann. Þetta var eitt af þeim tilvikum þar sem  ,,trailerinn“ eyðilagði myndina algjörlega og ég er því þakklátur að hafa fengið að sjá hana með ómengað hugafar.

Aladdin

Ef það er einhver mynd sem á að vera hérna þá er það þessi. Ég horfði á hana að minnsta kosti einu sinni á dag þar til að ég var kominn langt með grunnskóla. Íslenska talsetningin er stórkostleg og hefur gert það að verkum að ég hreinlega get ekki horft á hana á ensku því mér finnst þetta ekki vera sama myndin.

Star wars (episodes IV,V,VI)

Ég man þegar pabbi sýndi mér fyrst episode IV, það var lítið sofið það kvöld því ég leyfði pabba ekki að fara fyrr en við höfðum klárað að horfa á allar myndirnar. Síðan þá höfum við reglulega tekið slík maraþon.

Fight Club

Sem Brad Pitt og Edward Norton aðdáandi þá á þessi að sjálfsögðu heima á listanum. Plottið er mjög gott og aldrei grunaði mig neitt í gegnum alla myndina, sem að sjálfsögðu gerði áhrifin mun meiri þegar ég komst að hinu sanna. En það sem mér finnst best eru leikararnir og ég get ekki ímyndað mér þessa mynd með neinum öðrum.

Avatar

Ég hef oft heyrt fólk segja að þessi sé ofmetin, þó hún hafi verið fyrirsjáanleg, með týpískan Hollywood söguþráð og var ,,hypuð“ rosalega mikið upp, fannst mér hún einstaklega flott, spennandi og skemmtileg og það er það sem gerir hana að góðri mynd. Einnig er lokaatriðið í henni eitt flottasta bardagaatriði sem ég hef séð.

Big Fish

Tim Burton gerði margar vægast sagt góðar myndir en þessi finnst mér tróna á toppnum. Allt það sem stenst ekki við raunveruleikann hefur alltaf heillað mig í myndum og hvernig Burton lætur ævintýrin sameinast hinum venjulega heimi í Big Fish er hreint stórkostlegt.

Shrek

Daginn eftir að ég sá þessa var ég með harðsperrur í maganum eftir öll hlátrasköllin. Ég get ennþá flissað bara við að hugsa um einstök atriði úr henni. Mér fannst hún höfða sérstaklega vel til mín þar sem ég aldist upp við að heyra allar sögurnar um þær persónur sem koma fram í myndinni, svo sem rauðhettu og úlfinn og grísina þrjá. Þó að framhaldsmyndirnar hafi ekki verið eins góðar gat ég skemmt mér mikið yfir þeim.


Örn