Wednesday, April 6, 2011

Hringadrottinssaga


Um helgina horfði ég á frægu trílógíuna Hringadrottinssaga sem var leikstýrð af Peter Jackson. Það er frekar skrítið að hann hafi fengið að leikstýra jafn metnaðarfullu verki og þessu en fyrri myndir hans eru frekar tæpar fyrir þann markað sem Hollywood einbeitir sér að. Hann sérhæfði sig í að gera einskonar splatter myndir eins og Braindead og Bad Taste. Ég hef reyndar séð báðar og mæli með þeim því þær eru fyndnar og aðeins öðruvísi þó þær geti verið dálítið ógeðfelldar á tímum. Allavega, nóg um Jackson.

Ég heillast oft af myndum sem gerast í ævintýraheimum á borð við Middle Earth (Miðgarður minnir mig að það sé á íslensku) og þess vegna var ég fljótur að detta inn í þessa og ég man hvað það var erfitt að bíða alltaf eftir næstu mynd á sínum tíma.

Það ættu allir að þekkja Hringadrottinssögu og ég ætti því ekki að þurfa að segja mikið um söguþráðinn, kannski bara aðeins til að lengja bloggið. Hún fjallar um Hobbitann Fróða sem fær hring frá frænda sínum og þarf að farga honum í miklu eldfjalli. En það er hreint ekki eins auðvelt og það hljómar því þó það séu margir sem vilja hjálpa honum þá eru þó nokkuð fleiri sem vilja eignast hringinn fyrir sjálfan sig eða koma honum í hendurnar á hinum illa Sauron. Til að bæta gráu ofan á svart þá er hringurinn sjálfur illur og það verður sífellt erfiðara fyrir Fróða að bera hann þar sem hann þarf auk þess að glíma við ýmsar hættur.


Ég hef bæði hitt fólk sem elskar þessa mynd og hatar. Þó að ég sé nokkuð viss um að fyrri hópurinn sé fjölmennari þá sumt sem ekki er hægt að taka frá þessari mynd. Í fyrsta lagi er hún gífurlega metnaðarfull. Mikil vinna var lögðu í búninga auk þess sem mikið af leikmyndum voru búnar til fyrir myndina. Hún er einfaldlega bara ótrúlega flott, maður er ekki lengi að kaupa það að þetta sé heimur með göldrum, álfum, dvergum, drekum, illu og góðu og ég er nokkuð viss um það séu ekki margir sem myndu slá hendinni á móti því að fá að kíkja þangað í sumarfríinu svona einu sinni. Í öðru lagi er hún bæði vel leikin og tekin upp. Mér finnast persónurnar flestar mjög trúverðugar og skemmtilegar, bæði þær vondu og góðu.

Peter Jackson, sjáiði hvað hann er orðinn flottur kallinn!
Hringadrottinssaga eru auðvitað bækur eftir J.R.R. Tolkien og höfðu þessar myndir því töluverðan „fan base“ áður en þær voru gerðar. Ég skammast mín alltaf dálítið að hafa aldrei lesið þær og set það sem markmið á næstum hverju ári. En það er reyndar örugglega helsti gallinn við myndirnar að þær séu gerðar eftir bókum. Allar þrjár bækurnar eru þykkar og endalaust af hlutum eru þar sem ekki var hægt að setja inní myndina. Margir hafa örugglega orðið svekktir að sjá sumum persónum sleppt eða að sum atriði hafi ekki verið í myndinni.

Engu að síður voru myndirnar hver um sig þrír tímar og ég er nokkuð viss um að það hafi ekki verið algengt hér áður fyrr. Þó það sé ekki heldur algengt nú þá er ég viss um að Hringadrottinssaga hafi brotið ísinn og gert það aðeins auðveldara fyrir leikstjóra að framleiða myndir sem eru virkilega langar. Ég held að enginn hafi trúað því að meðal maðurinn hafi getað setið í bíó svona lengi fyrir Hringadrottinssögu.


Svo er gaman að segja frá því að vegna vinsælda myndarinnar fékk Peter Jackson leifi fyrir að gera mynd eftir Hobbitanum sem gerist undan Hringadrottinssögu. Við bíðum bara spennt, ég veit að ég geri það.

Dómur


Nei djók!
Afhverju valdi ég kvikmyndagerð? Í fyrsta lagi hef ég eins og flestir aðrir bara helvíti gaman að kvikmyndum og er það örugglega helsta ástæðan fyrir því að ég valdi það. Önnur ástæða var sú að ég hafði valið kvikmyndagerð í grunnskóla sem valfag og hafði skemmt mér konunglega þannig ég varð að prófa þetta.

Það sem mér fannst heppnast best í vetur voru fyrirlestrar frá leikstjórum. Allir sem komu voru mjög áhugaverðir og skemmtilegir og það var jafnvel skemmtilegra að hlusta á þá heldur en horfa á myndirnar þeirra. Ég hafði  líka alveg lúmkst gaman af kvikmyndasgöunni. Það er að segja þegar við byrjuðum að nálgast áttunda níunda áratuginn og síðar. Ég hafði minna gaman að læra um mismunandi gerðir myndavéla og horfa á hljóðlausar gamlar myndir um einhvern hund að hlaupa. Fyrir utan einstaka meistaraverk þá finnst mér bara þessar gömlu myndir frekar leiðinlegar.

Við tókum tvö kaflapróf sem voru töluvert mismunandi. Í fyrra prófinu fannst mér of mikil áhersla vera lögð á einstaka leikstjóra og myndir eftir þá og gerði það lærdóminn leiðinlegri. Ég var miklu sáttari með seinni prófið og finnst að þau ættu bæði að vera þannig upp byggð. Í því var nánast ekkert um einstaka leikara fyrir utan nokkra krossa því það þarf náttúrulega eitthvað til að halda manni frá tíunni. Meiri áhersla var lögð á stóra atburði og skemmtilegri hliðar sögunnar. En kannski var það bara ég þar sem ég hafði meiri áhuga á þessu í seinni partinn. Einnig var ég mjög feginn að vera ekki spurður út í japanska leikstjóra þar sem ég get nánanst ómögulega munað hvað þeir heita.

Eins og ég held að ég hafi sagt í síðasta bloggi þá er ég mjög ánægður með allar myndirnar sem við gerðum í vetur. Sú versta var örugglega heimildamyndin en ég hefði viljað gera hana mun betur.
Ég las bloggið hans Þorsteins og sá einn punkt þar sem ég var sammála. Þegar við vorum í kvikmyndagerð í austó þá voru tímarnir þannig að við fengum myndavél og svo áttum við að gera eitthvað með hana. Þannig voru allir tímarnir og það kom ýmislegt út úr því. Við gerðum sketsa og stuttmyndir. Þú (Siggi) segist einmitt vilja koma að minnsta kosti einni mynd að og ég held að þetta sé kjörinn lausn sem Þorsteinn kom með. Láta fólk mynda hópa sem notar morguntímana í að hlaupa um og taka mini verkefni. Það heppnaðist allavega vel í grunnskóla.

Það sem einkenndi dálítið kvikmyndagerð í vetur er áhugaleysi. Ég skil það fullkomlega að þetta fag er ekki númer eitt á listanum þegar það kemur að fara yfir verkefni og svoleiðis. En það kom sterkast fram í því að fara yfir bloggin en það gat dregist á langinn. Þetta smitaði auðvitað og það leið oft mjög langur tími milli blogga hjá mér eiginlega út af því að mér leið eins og ég þyrfti ekki að gera þau. Mér finnst þetta frekar leiðinlegt því það sést svo greinilega að þú hafir mikinn áhuga á þessu og hafir gaman að því að kenna og tala um kvikmyndir. Þá er spurningin bara sú hvort það sé sniðugt að biðja fólk um að blogga. Ég er ekki að reyna að segja að bloggin séu hræðileg (þvert á móti gat stundum verið gaman að pæla aðeins meira í myndum) en það gat verið helvíti erfitt að setjast niður og koma hugsunum sínum í orð.
Eitthvað svona nema með færri bókum og fleiri MR-ingum


Ég fékk hugmynd meðan ég skrifaði síðustu málsgrein hugmynd! Í staðinn fyrir bloggin gæturu haft nokkra tíma þar sem heimavinnan er að horfa á mynd og pæla aðeins í henni. Svo í einhverjum tíma þá myndu allir segja frá myndinni sem þeir horfðu á. Þetta er svipað eins og er með bókatíma í öðrum skólum. Þar sem nemendur þurfa að lesa 5 bækur og tala síðan um þær við kennarann. Þetta var bara smá hugmynd. =P

Friday, April 1, 2011

Lokaverkefni


Nú eru um tvær vikur síðan ég, Þorsteinn, Ármann og Villi hófum tökur á stuttmyndinni okkar og ætla ég að segja aðeins frá því hvernig það gekk. Ég átta mig á því að þegar þetta er skrifað er ekki búið að frumsýna myndina þannig ég skal reyna að setja spoiler alert ef eitthvað krassandi kemur á eftir.

Fyrst kom að sjálfsögðu hugmyndavinnan, við vorum með tvær hugmyndir í gangi og vorum dálítið ósammála um hvora ætti að velja. Við enduðum á þvi að kjósa og styst er að segja frá því að ég tapaði! Ég var samt alls ekki ósáttur því ég var mjög hrifinn af báðum hugmyndunum en mér fannst einfaldlega að sú sem tapaði væri mun einfaldari og auðveldari í framkvæmd. Það var kannski líka helsti galli hennar hvað hún var einmitt einföld. Ef þið eruð forvitin hver hin hugmyndin var þá getiði spurt okkur í skólanum J.

Þegar það var komið á hreint hvaða mynd við vildum gera var sest niður og skrifað handritið. Við höfðum góða hugmynd hvernig við vildum framkvæma þetta en þó voru nokkrar holur í plottinu sem þurftu lagfæringu.  Þegar handritið var loks tilbúið gátu tökur hafist. Nei, bíddu það var eitt eftir en það var að ákveða hlutverk. Í myndinni er eiginlega bara eitt aðalhlutverk og svo önnur miklu minni. Það var ekki mikil kosning um þetta heldur varð Villi nokkurn veginn sjálfkjörinn, hvort sem honum líkaði betur eða verr.

Við prentuðum handritiðút og keyrðum út um allan bæ að taka upp atriðin. Þrátt fyrir að hafa nokkurn veginn ákveðið hvernig við vildum að myndin væri þá spretta að sjálfsögðu alltaf upp hugmyndir á tökustað en það er einmitt eitt af því sem ég elska við þetta.

*Minor Spoiler Alert*
Partýið í byrjun myndarinnar fannst mér sérstaklega skemmtilegt, aðallega hvernig við fórum að því að taka það upp. Ég er að tala um það þegar villi ráfar um eins og hann sé blindfullur. Við vorum búnir að ákveða að við ætluðum að hafa hann í partýi en vorum í bölvuðu basli með hvar við vildum hafa það og hvernig við ættum að fjölmenna það. Þá datt okkur það í huga að hafa partýið einfaldlega í kjallaranum mínum . Við tókum fram sól (mjög sterkt ljós) og huldum það að hluta með tuskum og settum sprite flöskur fullar af vatni fyrir framan hana. Þetta gerði lýsinguna dálítið skemmtilega og myndaði smá partý stemmingu, eða það fannst okkur allavega. Það besta var hinsvegar hvernig við redduðum því að fjölmenna partýið. Eins og sést í myndinni þá létum við Villa halda á myndavélinni að sér ská upp, þið skiljið mig þegar þið sjáið myndina. Það næsta sem við gerðum var einfaldlega að hækka tónlistina í botn og síðan byrjuðum við hinir (ég, Þorsteinn og Ármann) að hoppa í kringum Villa. Ég á reyndar eftir að sjá útkomuna en mér fannst þetta skemmtileg lausn og ég vona að þetta hafi komið vel út.
*spoiler líkur*

Ef ég þyrfti að taka upp aðra stuttmynd þá væru nokkrir hlutir sem ég myndi gera öðruvísi. Í fyrsta lagi myndi ég dreifa allir vinnunni yfir lengri tíma. Það var vissulega mikið að gera hjá okkur í öðrum fögum og ekki um marga daga að velja þegar það kom að því að vinna í myndinni en eftir að hafa eitt heilum degi í að skrifa handritið og síðan þremur heilum dögum í röð að taka upp þá lá við að ég mundi æla þegar við ætluðum að byrja að klyppa....

Annað sem ég hefði líka viljað gera er að hafa tekið flestar senurnar oftar upp. Þegar maður loksins byrjar að klyppa þá hefur maður ekki lengur aðgang að myndavélinni ( eða bara getur ekki ímyndað sér að skella sér í tökur eftir síðustu session). Þannig ef ekki tókst vel að taka upp sum atriði þá getur klyppivinnan verið  mun erfiðari.


Það er ekki mikið annað sem mér dettur í hug nema kannski að byrja að vinna í stuttmyndinni eins fljótt og auðið er. Það er bara miklu skemmtilegra að taka upp mynd ef maður er ekki í stresskasti og þá getur maður líka leyft sér fleiri hluti.

Tangled

Ekkert lítið af hári!

Rapunzel: Something brought you here, Flynn Rider. Call it what you will... fate... destiny...
Flynn Rider: A horse.


Sem krakki var ég sannkallað disney frík. Enn þann dag í dag get ég talað með til dæmis Herkúles, Aladdín og Lion King. Þá er ég ekki að tala um einstök atriði eða setningar heldur alla myndina. Reyndar átti ég það til að horfa á þessar myndir sex sinnum á dag í tíu ár þannig það er kannski ekkert skrítið. Það sem ég er að reyna að segja að ég hef alltaf haft gaman af Disney myndum. Hinsvegar þá hætti ég að horfa á teiknimyndir ( fyrir utan einstaka pixar meistaraverk, þ.e.a.s. allar pixar myndirnar)  um tólf ára aldur. Það var ekki fyrr en í gær að ég horfði á fyrstu Disney myndina mína í mjög langan tíma.


Ég ætlaði að fara á þessa í bíó en komst að því mér til mikillar mæðu að þegar það kemur að teiknimyndum þá hætta sýningar á ensku miklu fyrr helduru en þær á íslensku. Ég var þessvegna að bíða þolinmóður eins og hinir þangað til að myndin kom út á dvd. Því ég ætlaði ekki að downloada einhverri rosalegri 3d mynd í lélegum cam gæðum****.

Svo kom loks að því að mér tókst að nálgast eintak og var það fljótlega spilað í fartölvunni. Allir þekkja söguna af stelpunni með löngu gullnu lokkana sem var læst upp í turninum og eina leiðin upp í turninn var að kalla á hana svo hún myndi láta ljósu lokkana falla til að hægt væri að klifra upp. Ég man ekki hvað hún heitir á íslensku en á ensku heitir hún Rapunzel. Tangled er lauslega byggð á þessari sögu en bætt er við nokkrum heillandi og skemmtilegum persónum auk þess sem sagan er auðvitað öðruvísi.

Tangled fjallar um prinsessuna Rapunzel sem var rænt af gamalli konu því hár hennar bjó yfir galdramætti. 
Með því að syngja getur Rapunzel læknað sár auk þess sem hárið hennar hefur einskonar yngingarmátt sem er einmitt ástæða þess að henni er rænt.  Gamla konan elur Rapunzel upp og lætur hana halda að hún sé dóttir sín. Á meðan geymir hún hana í turni til þess eins að geta notað yngingar mátt hársins. Hinsvegar finnur Rapunzel það innst inni að hún eigi í rauninni ekki heima í þessum turni strýkur hún ásamt sjarmerandi þjófinum Flynn Rider.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég les lýsinguna mína á myndinni þá hljómar hún ekki mjög spennandi, eiginlega bara eins og týpístk ævintýri.  En ég sem „Disney frík“ þá get ég fullvissað þig, kæri lesandi, að þetta er ein af þessum stóru. Hún á heima með með klassíkunum sem voru gerðar hérna áður fyrr.

Þegar ég var búinn að horfa á Tangled þá byrjaði ég að lesa mér um hana á netinu, svona eins og maður gerir með flest allt, og ég komst að nokkrum hlutum en kannski ekkert sérstaklega áhugaverðum. Helst er kannski að Tangled er dýrasta teiknimynd sem hefur verið gerð og auk þess næst dýrasta kvikmynd sem ger hefur verið á eftir Pirates of the Caribbean: At World‘s End.

****Ég segi þetta í algjöru gríni, ég stunda ekki ólöglegt niðurhal.



Thursday, March 31, 2011

V for Vendetta


 Ætla að koma því strax á framfæri að ætla aðeins að tala um myndina, en myndin og bókin eru ekki alltaf samstíga í öllu. Fyrir þá sem vissu það ekki þá er V for Vendetta upprunalega teiknimyndasaga skrifuð af Alan Moore, endilega kynnið ykkur hana.


In view, a humble vaudevillian veteran cast vicariously as both victim and villain by the vicissitudes of Fate. This visage, no mere veneer of vanity, is a vestige of the vox populi, now vacant, vanished. However, this valorous visitation of a bygone vexation stands vivified and has vowed to vanquish these venal and virulent vermin vanguarding vice and vouchsafing the violently vicious and voracious violation of volition! The only verdict is vengeance; a vendetta held as a votive, not in vain, for the value and veracity of such shall one day vindicate the vigilant and the virtuous. [laughs] Verily, this vichyssoise of verbiage veers most verbose, so let me simply add that it’s my very good honor to meet you and you may call me “V”
                               -V


Ætla að koma því strax á framfæri að ætla aðeins að tala um myndina, en myndin og bókin eru ekki alltaf samstíga í öllu. Fyrir þá sem vissu það ekki þá er V for Vendetta upprunalega teiknimyndasaga skrifuð af Alan Moore, endilega kynnið ykkur hana.
Löng en ótrúlega svöl tilvitnun. Ég man það eins og í gær þegar ég fór á V for Vendetta í bíó, það var í Háskólabíói árið 2006 með félögunum mínum úr körfubolta. Man reyndar örugglega bara eftir ferðinni því að dyravörðurinn ákvað að velja einn úr hópnum okkar og meina honum aðgang því hann væri ekki nógu gamall... meira fíflið. En nú að myndinni.
                 
Myndin gerist árið 2020 í Bretlandi. Þar hefur Adam Sutler misnotað sér aðstæður til að taka sér einræðis vald og gert það að fasista ríki. Við fáum fljótt að sjá að þetta hefur farið illa með Breta þar sem samkynhneigð er bönnuð, mikil ritskoðun ríkir, tíð útgöngubönn, spilltir embættismenn og marg fleira er í þessu fasista ríki.
                
 Aðal söguhetjan er Evey sem vinnur hjá sjónvarpstöð ríkisins.( Sem er að sjálfsögðu gjörspillt eins og við sjáum því Evey veit hvenær fréttaþulurinn fer með rangar fréttir því hann blikkar augunum stöðugt.) Líf hennar breytist á svip stundu þegar hún er á rölti ein um kvöld eftir útgöngubann. Þá ráðast tveir lögreglumenn á hana en henni er sem betur fer bjargað af dularfullum, grímuklæddum (duh!) manni. Þetta er að sjálfsögðu V sem myndin er skýrð eftir.
                
 V er án efa mest sjarmerandi ofurhetja sem ég veit um. Ég veit eignlega ekki hvernig ég á að útskýra það... hann er auðvitað hnittinn, bráðgáfaður og allt þetta klassíska en það er eitthvað meira. Kannski er það það að hann býr ekki yfir sérstökum ofurkröftum og er því aðeins berskjaldaðari heldur en flestar aðrar hettuklæddar hetjur. Hann hefur lítið annað en hnífasettið sitt og óvenju fiman líkama, en ég vil meina að það sé ekki ofurkraftur. Allaveganna, þá verður Evey einn helsti bandamaður V og framtíð þeirra vefst saman í miklum háskaleik upp á líf og dauða.

*Spoiler Alert*
Löngu síðar heyrði ég að trailer myndarinnar sem sýndur var í bíóhúsum og í sjónvarpinu hafi skemmt myndina fyrir mörgum. Megin plottið var að sjálfsögðu hvort honum mundi nú takast að sprengja upp ráðhúsið. Höfundi trailersins hefur fundist atriðið þar sem ráðhúsið spryngur í rauninni upp alveg geðveikt því hann ákvað að setja það í trailerinn... sem mér finnst aðeins of heimskulegt. En ég vil samt undirstrika það að þrátt fyrir að einhver skyldi vita að V takist loka áætlunarverk sitt þá er svo miklu meira í þessari mynd sem vert er að skoða. 


Ef myndbandið skyldi ekki virka =)



Monday, January 31, 2011

Oldboy

When life gives you a hammer...

Oldboy er Suður Kórísk mynd frá árinu 2003 eftir leikstjóran Park Chan-wook. Hún er önnur í þríleiknum The Vengeance Trilogy þar sem fyrsta myndin er Sympathy for Mr. Vengeance og sú síðasta er Sympathy for Lady Vengeance.


Myndin hefst árið 1988 þar sem vinur söguhetjunnar Dae- Su Oh er nýbúinn að borga lausnargjald fyrir hann út úr fangelsi. Dae – su Oh finnur sig fljótlega læstan inn í einskonar klefa án útskýringa. Mánuðirnir líða og Dae –su hefur ekkert annað en sjónvarp til að drepa tíman og hann byrjar fljótlega að sjá ofsjónur um leið og hann er svæfður með gasi á hverri nóttu. Einn daginn kemst hann að því að konan hans hefur fundist myrt og að hann sé sá grunaði.  Næstu 15 árin eyðir hann öllum sínum tíma í þjálfun, og þá aðallega að lemja veggi aftur og aftur, meðan hann skipuleggur flótta. Öflug byrjun kemur sögunni strax af stað, í dimmu umhverfi fylgjumst við með Dae-su þjást í fimmtán ár þangað til hann sleppur aftur í siðmenninguna. Áætlunarverk Dae-su er frekar augljóst eftir að hafa séð hann ganga í gegnum þessar hremmingar.


Oldboy er frábærlega skrifuð sem og kemur það fram í góðri flækju og söguþræði. Sagan á greinilega að rugla áhorfendur en um leið er notað „afturhvörfin“ (flashback) til að veita meira ljósi á söguna. Það var eitt í myndinni sem ég skyldi aldrei fullkomlega en það voru maurarnir. Mín getgáta er sú að með því átti að auka furðuleikan í myndinni, einfaldlega til að gera hana skrítnari. Einnig geta þeir verið þarna til að undirstrika einmannaleikan eins og Mi-do minnist á. Eitt veit ég en það er að mér fannst það mjög svalt element og gerði hana aðeins dulúðlegri.


Svalasta atriði myndarinnar er án efa bardagaatriðið á ganginum. Það þurfti 17 tilraunir á þremur dögum til að fullkomna það. Atriðið er líka ein samfelld taka sem mér finnst ótrúlegt miðað við það að þetta er bardagatriði og er örugglega tæpar fjórar mínútur, hlýtur að vera einhverskonar met. Auk þess eru engar tölvubrellur notaðar fyrir utan hnífinn sem endar í bakinu á Dae-su  í miðjum bardaganum (hversu hart!!). Það sem er svona sérstakt við þetta atriði er hversu ólíkt það er öllu sem maður er vanur í Hollywood myndum, og raunar öllum myndum því að japönsku kung-fu myndirnar eru líka allt öðruvísi. Atriðið er týpískt í þeim skilningi að hann er einn á móti öllum en hann hefur engan ofurkraft né er hann meistari í bardagalistum. Í staðinn er hann búinn að kýla veggi svo lengi að hann er kominn með það þykka húð svo hann getur lamið endalaust. Útkoman verður einstök. Hvernig atriðið er tekið upp minnir dálítið á tölvuleik. Þar sem leikmaðurinn þarf að koma sér áfram í borðinu meðan hann tekst á við fjöldan allan af óvinum. Myndatakan er engu að síður eitt það flottasta við atriðið. 


OM NOM NOM!

Aðspurður hvort hann vorkenndi ekki Choi Min-sik fyrir að þurfa að borða heilan lifandi kolkrabba, svaraði leikstjórinn Park Chan-Wook að hann vorkenndi frekar kolkrabbanum.


Sögur hafa verið á kreiki að Steven Spielberg og Will Smith séu að hugsa um að endurgera Oldboy. Ég er viss um að ég sé ekki einn um að finnast það vera slæm hugmynd. Sumt á bara að fá að vera, sérstaklega eitthvað svona velheppnað. Hollywood myndi aldrei samþykkja að gera endurgerð af Oldboy með sama endi. Þeir sem hafa séð hana vita hvað ég meina!


Saturday, January 29, 2011

Kvikmyndagrein


Jafar Panahi
Jafar Panahi er íranskur leikstjóri sem hlaut dóm þann 20. desember. Þar var hann dæmdur í 6 ára fangelsi auk þess sem að næstu 20 árin má hann ekki leikstýra myndum, skrifa handrit eða veita viðtöl, hvorki við erlenda eða innlenda miðla. Auk þess má hann ekki yfirgefa landið.


Aðeins á léttari nótunum þá er minnst á myndirnar hans og mér fannst lýsing á einni (The Mirror, 1997) hljóma mjög áhugverð. Í henni er ung stelpa í aðalhlutverki og fylgst er með henni koma sér heim úr skólanum. Í miðri mynd fær hún leið á því að leika í þessari mynd og stingur allt liðið af. Þá geta áhorfendurnir hlustað á stelpuna, því hún er ennþá með míkrófón á sér, og horft á ráðalaust kvikmyndatökuliðið ráfa um borgina að reyna að finna hana. Þessi mynd fær allaveganna prik fyrir frumleika!

Úr myndinni Mirror


Panahi er núna í viðkvæmri stöðu þar sem hann er sakaður um að vera að gera mynd. Opinberar ásakanir á hendur honum eru: „ koma saman með áform um að fremja glæpi gegn þjóðaröryggi landsins“ og „áróður gegn íslamska lýðveldinu“. Hann er auk þess kærður fyrir að eiga „óviðeigandi myndir“ sem er að sjálfsögðu bara hlægilegt að kæra hann fyrir það. Svo lengi sem myndir innihalda ekki eitthvað siðferðislega rangt, og þá á ég helst við barnaklám, þá má hver sem er eiga þær. Ég ætla ekki að fara frekar í dómsmálið sjálft en ef þið hafið áhuga þá er „linkur“ hérna fyrir neðan sem vísar á greinina.


Það að fólk sé handtekið og stungið í fangelsi er algjörlega nýtt fyrir mér. Ég er alinn eiginlega algjörlega upp af vestrænum myndum og mér dytti ekki í hug að gera pólitíska kvikmynd gæti verið lögbrot. Ef Michael Moore yrði settur í steininn af bandaríska ríkinu fyrir myndirnar sínar gæti ég ímyndað mér að allt yrði vitlaust.


Mótmæli í kvikmyndaformi er fullkomlega rökrétt. Eftir að þær urðu til og náðu sínum vinsældum þá var bara tímaspursmál þangað til að þær urðu vopn gegn spilltum stjórnmálamönnum og samfélagsmeinum. Ég veit að ef ég væri mótmælandi í landi þar sem það er kolólöglegt að vera ósammála hinum alvitra forseta og hæstráðanda þá myndi ég nota kvikmyndir. Reyndar gæti það verið öfugt, ef ég væri leikjstjóri í þess konar landi þá væri ég mótmælandi, en það skiptir ekki öllu máli.


Aðal ástæða þess að ég myndi nota kvikmyndir er hversu auðvelt er að dreifa þeim. Bók á arabísku þarf að þýða og það getur verið mjög dýrt. Ég hef reyndar engar tölur til að styðja mig en ég er nokkuð viss um að það sé töluvert ódýrara að þýða texta fyrir mynd. Aðallega út af því að þar er notast við ódýrt talmál og hver sem er ætti að geta gert það auk þess þarf að þýða mun minna.


Það er auðvitað auðvelt að sitja og dæma eitthvað sem er að gerast hinum megin á hnettinum þar sem aðstæður eru allt öðruvísi en í ljósti aðstæðna vil ég meina að við sem búum við málfrelsi erum ekki þau einu sem finnast þetta fáránlegt. Í Egyptalandi er allt að verða vitlaust og mjög stutt síðan er að Tunis var í heimspressunni út af mótmælum. Fólk er komið með nóg af spilltum stjórnvöldum og að það sé þaggað niður í þeim sem virkilega þora að standa upp í hárinu á þeim. Ég vona innilega að Jafar Panahi og fleiri, því hann er svo sannarlega ekki sá eini, verði látnir lausir sem fyrst. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast.




Þeir sem vilja nálgast greinina geta gert það hér: http://www.davidbordwell.net/blog/?p=11408