Hópur þrjú samanstóð af mér, Þorsteini (skossa) , Villa og Ármanni. Ég og Þorsteinn vorum með gamla hugmynd að stuttmynd og var ákveðið að nota hana til að spara okkur sem mesta hugmyndavinnu. Það eina sem við þurftum í raun að ákveða áður en við lögðum að stað var hvar við ætluðum að byrja og hvaða leið Ármann ætti að fara. Iðnskólinn var valinn og við héldum þangað.
Mikill tími fór í að að standa fyrir utan Iðnó og ryfja upp hvernig myndavélin virkaði. Helsta vandamálið var lýsingin en með miklu stússi og fikti náðum við völdum á því og tökur gátu hafist. Þar sem Ármann og Villi voru í raun einu leikararnir í myndinni (fyrir utan skossa sem nær aðdáunarverði göngu með flottum fótaburði í lokin) var ákveðið að ég og skossi myndum skipta myndatökunum bróðurlega á milli okkar. Við vorum með einskonar beinagrind að myndinni sem við fylgdum eftir en að mestu leiti var allt ákveðið á staðnum, til dæmis hvar Villi skyldi vera og hvaða leið Ármann ætti að fara. Allt gekk vel en það var mjög tímafrekt að „klippa“ eingöngu með myndavélinni og eftir tvo þrjá tíma vorum við komnir langt með tökur.
Það hefði ekki verið verra að vera með svona! |
Veðrið var ekki hið ákjósanlegasta en oft kom hellidemba og við þurftum að leita skjóls. Skossi hljóp heim í fyrstu dembunni til að sækja regnhlíf (við þorðum ekki að leyfa vélinni að blotna) en það mistókst og við urðum að sætta okkur bara við að bíða þar sem regnið náði ekki til okkar. Í þriðju dembunni ákváðum við að nota tækifærið og verðlauna okkur púlið og fá okkur vitaborgara. Hinsvegar hætti fljótlega að rigna þannig að við hertum okkur upp og kláruðum tökurnar, kaldir, svangir og blautir.
Ég var í megin dráttum mjög sáttur við afraksturinn. Hópurinn náði vel saman og engar erjur urðu um hver fengi að gera hvað. Uppáhalds tökurnar mínar voru meðal annars þegar aðeins sést í skóna hjá Ármanni labba niður tröppur og svo skóna hans Villa rétt á eftir. Einnig er takan þar sem Villi situr í mikilli hæð fyrir ofan Ármann og þeir eru báðir í mynd í miklu uppáhaldi. Það sem ég hefði viljað gera betur var klippingin í nokkrum atriðum en það hefði aldrei komið fyrir ef við hefðum fengið að nota tölvu. Einnig var eitt atriðið smá klúður þar sem myndavélin eltir Ármann og fer í kringum hann. Myndavélin fór í smá stund aðeins of nálægt honum og hreyfðist kannski aðeins of mikið í gegnum atriðið, enda gleymdum við að nota styllinguna þar sem gert er ráð fyrir að haldið sé á myndavélinni.
Þegar við ætluðum að setja tónlist í myndina hófst mikið ævintýri. Engin snúra var til að tengja ipod við myndavélina svo að það eina í stöðunni var að hafa upp á honum. Við hringdum örugglega í u.þ.b. helming bekkjarins sem ekki var í hópnum okkar og kennarann tvisvar. Ekki fannst snúran en við dóum ekki ráðalausir og héldum af stað upp í Garðabæ til að sækja aðra sem bekkjarbróðir minn á. Þegar við vorum loksins komnir með snúruna í hendur var rýnt í bæklinginn til að athuga hvernig ætti svo að flytja tónlist yfir á myndina. Þetta reyndist flóknara en við héldum og eftir mikið fikt gáfumst við upp og hringdum í Urði sem gat sagt okkur hvað við vorum að gera vitlaust. Það var ekki nóg að spóla fram að byrjun og hefja flutning þar heldur þurfti að vera liðið smá á myndina, þó ekki væri nema sekúndubrot.
Í megindráttum var þetta skemmtilegt verk og ég get ekki beðið eftir að taka upp lengri mynd þar sem ekki fer svona mikil vinna í upprifjun og vesen!
Fín færsla og vönduð umfjöllun. 6 stig.
ReplyDelete