Friday, December 3, 2010

RIFF!!!!!!


Riff 2010 var fyrsta kvikmyndahátíðin sem ég hef farið á og ég get sagt með nokkri vissu að hún verður ekki sú síðasta. Ég fór ekki á eins margar myndir og ég hafði viljað og sá kannski ekki eins margar góðar myndir og hafði viljað. Eitt er víst að á þessari hátíð upplifaði ég með skemmtilegustu atvikum sem komið hafa fyrir mig í kvikmyndahúsum. Ég hafði til dæmis aldrei gengið út í miðri mynd en ég tel það ekki vera síður eftirminnilegt atvik eins og að sjá skemmtielga hasar senu. Hér á eftir ætla ég að koma með heildarlista yfir allar myndir sem ég sá og mitt álit á þeim.

Cyrus

Þar sem þetta var opnunarmynd hátíðarinnar ,auk þess sem margir mæltu með henni því að hún væri líklegast „venjulegust“ af öllum hinum,  ákvað ég að fara á þessa. Myndin byrjar frekar týpískt á hinu klassíska „boy metts girl“. Söguhetjan John kynnist konu í partíi og verða þau mjög náin næstu dagana. Vandamálin byrja hinsvegar að hrannast upp þegar John kemst að því að sonur konunnar, Cyrus, vill í raun ekkert með hann hafa og hvað þá með mömmu sinni. Í kjölfarið byrjar skemmtileg atburðarrás þar sem þeir tveir heyja stríð sín á milli upp á mikilvægustu konu í lífi þeirra beggja. Þessi mynd var alls ekki sem verst þó að hún hafi kannski verið dálítið „týpísk“.

Ein hamingjusöm fjölskylda

 
Toxic Playground

Ég var áður búinn að minnast á þessa svo ef þið hafið áhuga skulu þið kíkja aðeins neðar. En ég mæli hiklaust með henni.

You are not I

ÉG var mættur upp í Háskólabíó á leiðinni á aðra mynd þegar ég áttaði mig á því að ég hafði mætt tæpum klukkutíma snemma. Mér fannst ekki vera tími til að fara heim í millitíðinni svo ég ákvað bara að bíða og jafnvel skoða hvort eitthvað annað væri í boði, svona í millitíðinni. Mér til mikillar ánægju var fyrirlestur að hefjast um einmitt þessa mynd. Því miður átti fyrirlesturinn að hefjast eftir myndina svo ég myndi ekki ná honum en þó var einhver kynning á höfundinum. Ég sá aðeins byrjunina á myndinni þannig ég get ekki verið að tjá mig mikið um hana en það sem gerðist á meðan ég sat þarna fór að mestu leyti fram hjá mér þar sem ég var of upptekinn að bíða eftir tímanum að líða.
Hefði örugglega getað sofið vært yfir henni

The Ape

Sænsk mynd sem skyldi frekar lítið eftir sig. Þetta er dæmi um mynd sem að mínu mati var einfaldlega alltof löng miðað við hvað gerðist í myndinni. Lýsingin á myndinni sagði einfaldlega að maður vaknaði útataður í blóði... og það er einmitt það sem gerðist. Síðan fylgjumst við með því hvernig hann virðist taka því að vakna í blóðbaði og tekst á við daglegt líf. Þessi var bara hreint og beint leiðinleg, alltof löng og ekkert gerðist. Lítið meira að segja, Svíarnir eiga að geta miklu betur en þetta.

Erum við þá bara öll apar?

The Dealer

Við fórum á þessa eftir að hafa séð ágæta dóma um hana í DV. Ég mun ekki gera sömu mistök aftur. Í myndinni er fylgt eiturlyfjasala í einn dag. Myndin byrjaði ágætlega og hafði gott „potential“ á því að verða góð mynd. Áhugaverðar aðstæður og persónur voru kynntar. Af einhverjum ástæðum ákveður leikstjórinn samt að yfirgefa allt og kynnir aldrei neitt af þessu áhugaverða af einhverri alvöru, fáum bara rétt svo að kíkja. Myndin er einnig alveg ótrúlega hæg, næstum allar senurnar enda á því að myndavélin hafði snúið í heilan hring svo áhorfandinn gat séð allt umhverfið en þeir þurftu ekki að gera það í hverju einasta atriði, hvað þá svona fáránlega hægt!     Til að draga þetta saman þá var The Dealer of mikil stuttmynd til að vera heilar 135 mínútur. Er hægt að áfellast mann fyrir að hafa farið eftir 100?
Honum yrði ekki skemmt...


Womb

Í stuttu máli sagt fjallar Womb um konu sem ákveður að fæða látinn kærasta sinn með hjálp nýrrar klónunar tækni. Hvað get ég sagt... ég á mjög erfitt að „höndla“ vandræðanlegar eða óþæginlegar aðstæður, og einmitt mesti hluti þessarar myndar var óþæginlegur! Flottar pælingar á bak við hana, samfélag þar sem litið er niður á klóna og þeir ekki taldir sem manneskjur. Þó Womb hafi ekki verið mjög geðsleg get ég alls ekki sagt að hún hafi verið leiðinleg. Ég átti auðvelt með að fylgjast með á meðan ég neitaði að trúa að þetta væri að gerast. Ein pæling: ef þetta hefðu verið lesbíur hefðum við ekki getað búið til „loop“?
Ástin já...


Big Man Japan

Eitt orð: SÚRT. Big Man Japan er mocumentary og fjallar um mann í höfuðborg skrímslana Tokyo. Hann hefur það starf að berjast við öll þau skrímsli sem ráðast á borgina og það gerir hann með því að tengja sig við rafmagn og verða risastór. Myndin er frekar hæg af stað og er aðallega samtöl þar sem við reynum að kynnast Big Man Japan en það er hann kallaður. Hann er ekki mjög vinsæll af borgarbúum og er í raun frekar mikill lúser. Það sem toppar myndina er endirinn. Hann er líklega það súrasta sem ég hef séð á æfinni, ég skyldi ekkert, en það kom ekki í veg fyrir hláturinn. Þessi var stórskemmtileg og fær fjóra risa af fimm!





Þú messar ekki í hafinu!

Brim

Án efa með uppáhalds íslensku myndum mínum, hún er uppi á listanum með Allt á hreinu og Sódómu. Áhöfn á litlum skipi heldur á veiðar í enn eitt skiptið. Hinsvegar er ekki allt með feldu því einn maður úr áhöfninni hefur framið sjálfsmorð og kona komið í hans stað. Við fáum að sjá hvernig þetta einangraða karlasamfélag tekst á við það að fá kvenmann um borð. Persónurnar eru að sjálfsögðu allar frekar ýktar en bráðskemmtilegar og um leið og myndin dregur frekar svarta mynd af sjómannalífinu þá er hún þó rómantísk og fær mann til að skella upp úr. Mæli hiklaust með þessari því það er engan veginn of seint að sjá þessa.

1 comment: