Friday, January 28, 2011

Frönsk kvikmynd

Micmacs (Micmacs à tire-larigot)

Micmacs er nýjasta mynd leikstjórans Jean-Pierre Jeunet (ég er á þeirri skoðun að helmingur Frakka bera nafnið Jean bara eftir að hafa séð credit listann!!) Hann er enginn nýliði og hefur leikstýrt 11 myndum og nokkrar töluvert frægar, allaveganna kannaðist ég við þær. Í safni hans eru til dæmis Le fabuleux destin d‘Amélie Poulain og Alien Resurrection. Ég hef borið mikla virðingu fyrir frönskum myndum eftir að ég sá Taxi myndirnar þó ég hafi ekki mikið verið að horfa á fleiri. Hinsvegar eftir að hafa séð Micmacs held ég að ég fari að leita að fleiri frönskum gullmolum.

Ég þekkti heldur ekki franska nafnið!
Þetta nafn þekkti ég hinsvegar ^^

             

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og nú að einhverju allt öðru, en samt ekki. Bazil lendir í því ungur að missa pabba sinn eftir að hann steig á jarðsprengju. Lífið er enginn dans á rósum hjá Bazil, þegar hann er orðinn fullorðinn maður fær hann kúlu í höfuðið en nær þó að lifa af. Það mætti segja að hann verði frekar skrítinn eftir þá lífsreynslu og líf hans tekur óvænta stefnu. Hann kynnist hóp af undarlegu fólki sem tekur honum opnum örmum og verður honum eins og fjölskylda. Líf hans virðist vera að komast í fastar skorður þangað til að hann finnur mennina sem framleiddu jarðsprengjuna og kúluna. Þá ákveður Bazil að taka til sinna ráða.

            Eitt af því sem ég tók mest eftir voru svipbrigðin í myndinni. Það var kannski út af því að þetta var erlend mynd og ég skyldi ekki hvað fólkið var að segja. Hún var textuð á ensku en mér finnst það ekki vera eins. Að manneskja segi þér annars vegar hvernig henni líður er ekkert skylt því að ef hún myndi rétta þér útfillt A4 blað stútfullt af lýsingarorðum. Því reyndi ég miklu meira að fylgjast með því hvernig persónurnar sögðu hlutina og ég skemmti mér konunglega við það. Mörg bestu atriðin voru líka einmitt þau þar sem enginn sagði neitt!

Myndin var að sjálfsögðu ekki gallalaus en það sem mér fannst helst vera að var kannski ekki við myndina að sakast. Þar sem hún var á frönsku þá held ég að ég hafi ekki fattað fínri orðaleikina og húmorinn í þeim. Mig grunaði allaveganna sterklega að það væri eitthvað meira í gangi en það sem stóð í textanum, en kannski er það bara ég.

Músíkin var mjög spes og ég er eiginlega ekki viss um hvað mér fannst um hana. Ég get sætt mig við það að hún passaði vel við þá stemmingu sem myndið var að búa til. Þið getið heyrt aðal þemalagið í „trailerinum“ hérna neðst

Myndin sjálf var alveg ótrúlega sniðug. Án þess að skemma fyrir ætla ég að reyna að útskýra hvað ég á við. Góðu kallarnir í myndinni voru með áætlunarverk sem þeim þurfti að takast og það var einmitt hvernig þau fóru að öllu því sem þau þurftu að gera sem ég elskaði mest. Það var sama hvað þurfti að gera þau urðu að gera það á einhvern flippaðan og stórfenglegan hátt.

Sem er einmitt næsti punkturinn minn. Myndin er algjört augnakonfekt. Hún ber ákveðinn ævintýrlegan blæ sem minnir helst á pan's labyrinth. Einhverskonar framandi ævintýraheimur þar sem allt er frekar ógnvekandi en spennandi. Þó að það séu engar klassískar ævintýraverur í Micmacs þá hefði umhvefið og þá helst „aðal bælið“ alveg geta boðið upp á að hýsa álfa og huldufólk.

Eins og á minntist lítilega á hérna áðan þá hafði ég mjög gaman af þessari mynd og gæti vel ímyndað mér að fara á hana aftur og jafnvel einu sinni enn. Húmorinn er stórkostlegur og myndin sjálf er ótrúlega sniðug. Músíkin er frekar „spes“ en það er einmitt það sem lýsir henni best. Micmacs er skemmtilega „spes“.



1 comment: